Not a member of Pastebin yet?
Sign Up,
it unlocks many cool features!
- LEÐURBLÖKUR Á ÍSLANDI
- ÆVAR PETERSEN
- Í hugum margra Íslendinga tengjast leðurblökur einkum hryllingssögum um blóðsugur á borð við Drakúla greifa. Í íslensku umhverfi eru þær heldur framandlegar skepnur og það kemur því mörgum á óvart að þær skuli eiga það til að slæðast til landsins. Vitað er um 13 tilvik þar sem leðurblökur hafa borist til Íslands, alls 18 einstaklingar.
- Leðurblökur (ættbálkur Chiroptera) lifa ekki að staðaldri hér á landi en þær finnast sem flækingsdýr. Í þessari grein er dregið saman yfirlit um þær leðurblökur sem fundist hafa á Íslandi, lifnaðarháttum dýranna er lýst stuttlega, raktar birtar og óbirtar heimildir um komur þeirra og reynt að gera grein fyrir hvaðan þær berast til landsins og hvernig.
- ■ UM LEÐURBLÖKUR
- Leðurblökur finnast í öllum hlutum heims nema í nyrstu héruðum og á Suðurskautslandinu. Þær eru mjög þýðingarmikill dýrahópur á heimsvísu þótt lítið fari fyrir þeim hér á landi. Almennar upplýsingar um leðurblökur má m.a. finna í yfirlitsriti MacDonalds (1984) og þýddri ritröð Óskars Ingimarssonar og Þorsteins Thorarensen (1988).
- Leðurblökuættbálknum er skipt í tvo undirættbálka, flughunda eða stórblökur (Megachiroptera), stundum nefndar aldinblökur, og hinar eiginlegu leðurblökur eða smáblökur (Microchiroptera). Í grófum dráttum má segja að stórblökur séu stórar leðurblökur en hinar litlar. Stærstu stórblökur eru með allt að tveggja metra vænghaf og verða 1,5 kg að þyngd en smæstu smáblökur ekki nema 15 cm og einungis 1,5 g. Leðurblökur eru einu hryggdýrin að fuglum frátöldum sem geta haldið sér á lofti um langan veg.
- Um 950 mismunandi tegundir af leðurblökum eru til, en það er u.þ.b. fjórðungur núlifandi spendýrategunda. Fjöldi tegunda í heiminum samkvæmt ritum er nokkuð breytilegur, og fer hann eftir því hvernig sérfræðingar skilgreina mismunandi stofna til tegunda. Samkvæmt yfirlitsverki MacDonalds (1984) er stórblökum skipað í aðeins eina ætt en henni er deilt í 44 ættkvíslir með 173 tegundum. Smáblökur eru langtum tegundafleiri; af þeim eru 18 ættir með 143 ættkvíslum sem í eru 777 tegundir. Myotis er tegundaflesta ættkvísl leðurblaka með 93 tegundum, en tvær þeirra hafa einmitt komið hingað til lands (sbr. 1. mynd).
- Flestar smáblökur eru náttdýr sem sjá illa en veiða samt smádýr á flugi sér til viðurværis. Til þess hafa þær innbyggðan bergmálsradar og afar næma heyrn. Þær senda frá sér hátíðnihljóð og þegar hljóðið skellur á einhverri fyrirstöðu, s.s. tré, húsi eða fljúgandi dýri, nema þær bergmálið. Á þennan hátt gera þær sér grein fyrir stærð og fjarlægð bráðar á flugi og forðast árekstra. Meðal smáblaka eru hinar einu sönnu blóðsugur, sem hafa orðið tilefni til fjölmargra hryllingssagna. Ólíkt smáblökum eru flestar stórblökur á ferli á daginn. Þær hafa stór augu, sjá vel og eru með gott lyktarskyn. Stórblökur lifa einkum á ávöxtum.
- Sá háttur leðurblaka að safnast í stóra hópa í skúmaskotum er vel þekktur. Þær velja sér hella, klettaveggi eða skógarþykkni en halda einnig til á mannvirkjum, s.s. í námum, á kirkjuloftum eða íbúðarhúsum, í sprungum í veggjum eða sérstökum kössum sem settir eru upp fyrir þær, svo dæmi séu tekin. Sumir staðanna hafa verið notaðir um aldir og geta hýst milljónir leðurblaka í einu. Frá slíkum fjölda dýra kemur óhjákvæmilega mikill úrgangur sem safnast í þykk lög en saurinn hefur sums staðar verið notaður til áburðar. Leðurblökur nota þessa samkomustaði til ýmissa þarfa, t.d. sem svefnstaði á daginn, til að velja sér maka, sem uppeldisstaði fyrir ungviði og til vetrardvalar. Sumar leðurblökutegundir fljúga langar leiðir frá sumarheimkynnum til vetrardvalarstaða, eins og fuglar eru betur þekktir fyrir. Margar leðurblökur eru í dvala yfir vetrartímann en við það hægir á líkamsstarfseminni og þær eru í hálfgerðu móki.
- ■ GÖGN
- Náttúrufræðistofnun Íslands hefur um áratugaskeið safnað og varðveitt gögn um ýmsa þætti náttúru landsins, þ.á m. flækingsdýr eins og leðurblökur. Upplýsingar um sumar leðurblökukomur eru hvergi skráðar nema þar en stofnuninni hafa auk þess áskotnast mörg dýranna til varðveislu. Einnig hefur rituðum heimildum, birtum og óprentuðum, verið haldið til haga. Þannig hafa upplýsingar um leðurblökukomur smám saman safnast á einn stað og mynda þessi gögn upplýsingagrunninn sem greinin er byggð á.
- ■ RITAÐAR HEIMILDIR
- Mjög lítið hefur verið ritað um leðurblökur á Íslandi. Yfirlitsritin góðkunnu um hérlend spendýr (Bjarni Sæmundsson 1932, Bjarni Sæmundsson og Degerböl 1939, Árni Einarsson 1980a) fjalla ekkert um leðurblökur. Óskar Ingimarsson og Þorsteinn Thorarensen (1988) tæpa á því sem hefur verið birt, en prentaðar heimildir gefa engan veginn heilsteypt yfirlit um komur þessara dýra.
- Grein Koopmans og Finns Guðmundssonar (1966) er skilmerkasta heimildin um þetta efni en þar eru raktar leðurblökuathuganir sem þeim var kunnugt um. Síðan hafa þrjár viðbótarathuganir frá því fyrir 1966 komið í leitirnar. Faber (1820) getur leðurblöku sem fannst í Dýrafirði um 1817 og um 1936 fannst leðurblaka í Rangárvallasýslu (Óskar Ólafsson 1982). Eitt dýr sást í Meðallandi árið 1958 (Ólafur Hansson 1960) en frumheimildin hefur ekki fundist þrátt fyrir talsverða leit. Þá hafa leðurblökur sést hér fimm sinnum síðan grein Koopmans og Finns var rituð. Sumum leðurblökuheimsóknum höfðu verið gerð skil áður (Finnur Guðmundsson 1943, 1944, 1957, Ryberg 1947, Hayman 1959) og Jónas Jakobsson (1964, 1967) tók saman yfirlit um tengsl veðurfars og leðurblökukoma.
- Krzanowski (1977) kveður Koopman og Finni hafa yfirsést verk Pennants (1784, 1787a) sem segir leðurblökur finnast stundum á Íslandi. Staðreyndin er hins vegar sú að þeir slepptu ritum Pennants af ásettu ráði því Finni þóttu umsagnir hans um dýraríki landsins ekki nógu trúverðugar (bréf, dagsett 23. nóv. 1965). Í ljósi þess hve leðurblökur hafa sést hér oft, þ.á m. athugun Fabers frá um 1817, tel ég ekkert því til fyrirstöðu að álykta að leðurblökur hafi flækst hingað endrum og eins á liðnum öldum, þótt upplýsingar um einstök atvik séu glataðar.
- Pennant nefnir jafnvel ákveðna tegund, sem heitir á ensku the Common Bat. Samt er ekki vitað hvaða tegund átt er við því enska heitið hefur verið notað um mismunandi leðurblökutegundir (Ryberg 1947). Í þýsku útgáfunni (Pennant 1787b) er tegundin talin vera Vespertilio murinus, sem er kölluð apalblaka á íslensku. Preyer og Zirkel (1862) telja tegundina sem Pennant á við vera Vespertilio pipistrellus, sem nú er jafnan kölluð Pipistrellus pipistrellus en dvergleðurblaka á íslensku. Ekki verður séð að þessar tegundargreiningar séu neitt annað en ágiskanir og því er ógjörningur að taka þær til greina. Bæði Koopman (bréf, dagsett 26. jan. 1966) og Krzanowski (1977) töldu (hvor í sínu lagi að því er virðist) að Pennant hlyti að eiga við hrímblöku Lasiurus cinereus. Sú ályktun var líka byggð á getgátum því þeir tóku mið af þeim tegundum sem þá höfðu örugglega sést áður, en þess háttar tegundagreiningu er ekki treystandi.
- ■ ÍSLENSKAR ATHUGANIR
- Skráðar leðurblökukomur eru 13 á Íslandi. Í öllum tilvikum var um stök dýr að ræða, nema árið 1981 þegar sex dýr fundust saman. Því er vitað um 18 einstaklinga héðan (1. tafla, bls 7).
- Til viðbótar 18 ofangreindum dýrum geta Hutson og Hill (1986) um tvær leðurblökur sem sáust í Ingólfshöfða (ASkaft) 24. júlí 1984. Við nánari skoðun þykir ekki ráðlegt að taka þá athugun til greina. Aðstæður benda eindregið til þess að þarna hafi verið um sjósvölur Oceanodroma leucorrhoa eða stormsvölur Hydrobates pelagicus að ræða.
- Í þremur tilvikum af þessum 13 sáust leðurblökurnar aðeins á flugi. Þess vegna er ekki vitað hvaða tegundir áttu í hlut. Í tveimur tilvikum til viðbótar eru dýrin ekki varðveitt og engin tegundargreining fyrir hendi. Tegund er því þekkt í átta tilvikum og á við alls níu dýr.
- Náttúrufræðistofnun Íslands geymir langflest dýrin sem hafa varðveist. Sex eru geymd heil í vökva en eitt er uppsett (1. mynd) og skrokkur þess í vökva. Skrokkar tveggja dýra til viðbótar eru varðveittir í vökva en skinn þeirra eru uppsett í Vestmannaeyjum, annað á byggðasafninu en hitt á Náttúrugripasafni Vestmannaeyja.
- Ofangreind níu dýr frá Íslandi eru af fjórum tegundum. Þær eru hrímblaka Lasiurus cinereus, ljósfæla Myotis lucifugus, trítilblaka Pipistrellus nathusii og skógarblaka Myotis keeni septentrionalis. Hrímblaka er heiti sem Finnur Guðmundsson stakk upp á (Finnur Guðmundsson 1957). Nöfn trítilblöku og ljósfælu birtust fyrst á prenti í bók Óskars Ingimarssonar og Þorsteins Thorarensens (1988) en höfundur þessarar greinar gaf skógarblöku nafn.
- Hrímblaka (1. mynd) er algengasta leðurblakan hér og hefur hennar orðið vart fjórum sinnum. Hún kemur frá Vesturheimi þar sem engin önnur leðurblökutegund hefur jafn víðfeðma útbreiðslu, allt frá miðbiki Kanada suður til Argentínu (Van Zyll de Jong 1985).
- Ljósfæla (2. mynd) hefur fundist hér tvisvar sinnum. Hún er einnig norðuramerísk að uppruna og mjög útbreidd, finnst allt sunnan frá Mexíkó norður til Alaska og Labrador. Ljósfæla er útbreiddasta og algengasta leðurblökutegund Kanada. Einstakir stofnar tegundarinnar eru mjög breytilegir og er henni skipt upp í nokkrar deilitegundir (Van Zyll de Jong 1985).
- Trítilblöku (3. mynd) hefur einnig orðið vart tvisvar en hún er jafnframt eina evrópska tegundin sem hefur fundist hérlendis. Trítilblöku er að finna strjált í Vestur-Evrópu en hún er algengari í Austur-Evrópu, austur til Úralfjalla og Kákasus, svo og í Litlu-Asíu. Trítilblaka er fardýr og fljúga dýrin sem lífa nyrst í Evrópu suðvestur á bóginn til vetrardvalar. Þessi dýr eru langförul; lengsta staðfesta flug er 1600 km (Schober og Grimmberger 1989).
- Eitt eintak af skógarblöku (4. mynd) hefur fundist hér á landi. Íslenska dýrið reyndist vera af deilitegundinni septentrionalis, sem er stundum talin sérstök tegund, Myotis septentrionalis. Skógarblökur er að finna á tveimur aðskildum svæðum í Vesturheimi. Annar stofninn (hinn eiginlegi keeni stofn) finnst aðeins á takmörkuðu svæði í Bresku-Kólumbíu á vesturströnd Kanada. Hinn stofninn finnst á belti sem liggur frá Nýfundnalandi, um Vötnin miklu vestur undir Klettafjöll, en dýr af deilitegundinni septentrionalis tilheyra einmitt honum (Banfield 1974).
- Skógarblakan sem barst til Íslans fannst um borð í m.s. Ísnesi og mun það vera í fyrsta sinn sem dýr af þessarri tegund finnst í skipi (John E. Hill, pers. uppl.). M.s. Ísnes var nýkomið frá Bandaríkjunum og fundust fimm aðrar leðurblökur í lest þess á sama tíma. Ætla mætti að dýrin hafi öll verið sömu tegundar, en hitt dýrið, sem var varðveitt, reyndist þó vera ljósfæla. Því miður var fjórum dýranna hent áður en þau voru greind til tegundar en það hafa líkast til verið skógarblökur og/eða ljósfælur.
- Á 5. mynd eru sýndir fundarstaðir leðurblaka á og við Ísland. Athygli vekur hve dreifing þeirra er áberandi suð- og vestlæg. Það er þó skiljanlegt þegar haft er í huga hvar flest dýranna sem hafa verið greind til tegundar eru upprunnin.
- Ef við athugum hvenær á árinu leðurblökur sjást kemur í ljós að öll dýrin fundust seinni hluta árs, frá ágúst fram í desember. Þetta er sá árstími þegar leðurblökur eru helst á ferð frá sumarslóðum til vetrardvalarstaða. Ein hrímblakan fannst þó ekki fyrr en í desember og er það óvenjuseint, því í Kanada er fartími hrímblaka einungis fram í október (Van Zyll de Jong 1985).
- ■ UMRÆÐA
- HVERNIG BERAST LEÐURBLÖKUR TIL LANDSINS?
- Íslenska landspendýrafánan er mjög fábreytt samanborið við meginlöndin beggja vegna. Ástæðan er augljós. Ísland hefur ekki verið tengt öðrum löndum eftir að ísaldarjökullinn hopaði, fyrir u.þ.b. 10 þúsund árum og hafið torveldar flestum landspendýrum að komast til landsins. Tvær náttúrulegar leiðir eru helst opnar landspendýrum að Íslandsströndum, á ís eða fljúgandi.
- Fáar tegundir landspendýra lifa á heimskautaslóðum svo ekki er við mörgum tegundum að búast úr þeirri átt. Vafalítið bárust refir Alopex lagopus upphaflega til landsins með hafís, en þeir eru álitnir einu landspendýrin sem höfðu hér fasta búsetu fyrir landnám (Páll Hersteinsson 1980). Hvítabirnir Thalarctos maritimus koma líka með ís.
- Á ferðum sínum milli heimshluta hefur maðurinn viljandi eða óviljandi borið með sér dýr. Í kjölfarið hafa margar tegundir numið land á nýjum slóðum, oft á kostnað dýra sem voru þar fyrir. Ísland hefur ekki farið varhluta af slíkum landnemum og er minkur Mustela vison eitt kunnasta dæmið. Hagamús Apodemus sylvaticus, og jafnvel húsamús Mus musculus, eru taldar hafa borist til landsins með landnámsmönnum. Brúnrotta Rattus norvegicus kom með kaupförum á 18. öld og svartrotta Rattus rattus slæðist hingað endrum og sinnum með skipum, þótt hún hafi ekki náð fótfestu (Bjarni Sæmundsson 1932, Árni Einarsson 1980a).
- Finnur Guðmundsson getur þess í fyrri greinum sínum um leðurblökur (1943, 1944, 1957) að þær hafi líklega komið hingað með skipum eða flugvélum. Hann vildi þó ekki útiloka að þær gætu borist með loftstraumum. Þá skoðun var hann greinilega farinn að aðhyllast meir í síðustu greininni, frá 1957.
- Þegar ritgerð þeirra Koopmans og Finns (1966) var í undirbúningi athugaði Jónas Jakobsson (1964) veðurlag dagana á undan hrímblökukomunum 1943, 1957 og 1964. Jónas komst að þeirri niðurstöðu, sem hann birti síðar (Jónas Jakobsson 1967), að mjög sterkar líkur væru fyrir því að öll dýrin hefðu komið af eigin rammleik. Þessi túlkun á sérlega vel við hrímblöku, sem er dugmikið flugdýr, fardýr hið mesta og útbreidd allt norður til Nova Scotia (Banfield 1974).
- Öðru máli gegnir um ljósfælu. Þótt hún finnist allt norður til Labrador og Nýfundnalands heldur hún sig á svipuðum slóðum árið um kring (Banfield 1974). Koopman og Finnur (1966) töldu líklegast að dýrið frá 1944 hefði borist með skipi, ekki síst af því að það fannst í Reykjavík. Þetta getur vel staðist, því skipaferðir voru tíðar frá St. John's á Nýfundnalandi til Reykjavíkur meðan á heimsstyrjöldinni síðari stóð.
- Árið 1981 kom glögglega í ljós að leðurblökur berast með skipum. Þá fundust sex dýr um borð í m.s. Ísnesi í Reykjavíkurhöfn 24. ágúst, en skipið hafði komið frá Bandaríkjunum 21. ágúst. Dýrin voru dauð í lestinni en hafa vafalítið borist lifandi til landsins, enda aðeins rétt byrjuð að rotna.
- Niðurstaðan er sú að leðurblökur koma hingað líklega bæði fljúgandi og með hjálp manna. Leðurblökur leita í lestir skipa á sama hátt og í hella eða önnur skúmaskot og berast þannig milli landa. Ekki eru miklar líkur á því að leðurblökur komi með flugvélum.
- Síðustu fimm áratugi hafa leðurblökur sést á u.þ.b. fimm ára fresti. Þær eru sennilega algengari nú en fyrr á öldum, ekki síst ef rétt er að þær komi einkum fyrir tilstilli manna, enda eru skipaferðir mun tíðari og skipin fljótari í förum en áður var.
- ÞVÍ ERU EVRÓPSKAR LEÐURBLÖKUR SJALDSÉÐARI EN AMERÍSKAR?
- Dreifing leðurblaka sem fundist hafa hérlendis er ekki ósvipuð dreifingu norðuramerískra fugla, sem láta sjá sig endrum og eins. Evrópskir flækingsfuglar eru langtum algengari en norðuramerískir (sjá skýrslur um sjaldgæfa fugla í tímaritinu Blika). Hvers vegna er þessu öfugt farið með leðurblökur? Ástæðan hlýtur að vera fólgin í lifnaðarháttum tegundanna, útbreiðslu þeirra, farháttum og hversu algengar þær eru.
- Nýlegt yfirlit um leðurblökur telur 31 tegund í Evrópu (Stebbings og Griffith 1986). Flestar halda sig árið um kring á sömu slóðum og því eru næsta litlar líkur á að þær komi hingað hjálparlaust. Aðeins átta evrópskar leðurblökutegundir eru fardýr en útbreiðslu fjögurra þeirra er þannig háttað eða þær svo sjaldgæfar að þeirra er tæplega að vænta hér á landi. Þá eru eftir fjórar tegundir sem gætu hugsanlega flogið hingað, en það eru rökkurblaka Nyctalus leisleri, húmblaka N. noctula, apalblaka og trítilblaka. Þessar tegundir finnast í Norðvestur-Evrópu en mestu fardýrin eru meðal þeirra einstaklinga sem lifa í Mið- og Austur-Evrópu. Það dregur úr líkum á því að evrópskar leðurblökur nái til Íslands, nema ef vera kynni apalblaka sem er einna mesta fardýrið í hópi þeirra. Sú tegund hefur þó enn ekki látið sjá sig.
- Erfiðara er að átta sig á hvers vegna evrópskar leðurblökur berast ekki alloft hingað með skipum. Þær ættu að slæðast hlutfallslega oftar á þann hátt en þær norðuramerísku, þar eð skipaferðir eru mun tíðari frá Evrópu. Vera kann að leðurblökur flækist að jafnaði sjaldnar út fyrir venjubundin heimkynni með skipum en fyrir eigið tilstilli. Báðar trítilblökurnar fundust á suðvesturhorni landsins. Það bendir til þess að þær hafi borist með skipum en ekki af sjálfsdáðum, annars hefðu þær frekar átt að taka land á Suðausturlandi. Miðað við tíðni trítilblaka á Bretlandseyjum, þar sem tegundarinnar hefur aðeins orðið vart tvisvar sinnum (Stebbings og Griffith 1986), eru sáralitlar líkur á að þær komi til Íslands. Svo virðist sem evrópskar leðurblökur geti ekki flogið sjálfar til landsins og að eina leiðin sé sú að þær njóti hjálpar manna. Hitt má svo heita öruggt að fleiri leðurblökur hafa komið til Íslands þótt þeirra hafi ekki orðið vart. Samt er engin ástæða að ætla annað en að þau dýr sem hafa fundist gefi dæmigerðan þverskurð af komum þessara dýra hingað.
- ■ ÞAKKIR
- Dr. Hans Baagøe, John E. Hill og Dr. Paula Jenkins er þökkuð kærlega aðstoð við greiningar á leðurblökum sem Náttúrufræðistofnun hafa áskotnast á síðustu árum.
- ■ SUMMARY
- THE OCCURRENCE OF BATS (ORDER CHIROPTERA) IN ICELAND
- All known records of bats in Iceland and references are reviewed. The origin of bats and their possible means of travel to the country is discussed.
- Documented cases of bat occurrences in Iceland are 13, all involving single animals except once when six animals were found together (Table 1). Three of the records are sightings but in two further instances the animals were not preserved. Hence, identification is available in eight instances, in all nine animals. All the bats were found during the second half of the year, from August till December. Most of the specimens are preserved at the Icelandic Museum of Natural History.
- Hutson and Hill (1986) mention an additional record, involving two animals. Sufficiently strong evidence is not thought to be available for this record, which probably relates to Leach's Petrels Oceanodroma leucorrhoa or Storm Petrels Hydrobates pelagicus.
- Four bat species have been recorded in Iceland: Hoary Bat Lasiurus cinereus (4 individuals), Little Brown Bat Myotis lucifugus (2), Nathusius' Pipistrelle Pipistrellus nathusii (2), and Northern Long-eared Bat Myotis keeni septentrionalis (1).
- Finnur Guðmundsson (1943, 1944, 1957) proposed that bats were most likely carried to Iceland on ships or aeroplanes, less so on their own accord. Meteorologist Jónas Jakobsson (1964, 1967) demonstrated quite convincingly that the Hoary Bats from 1943, 1957 and 1964 most likely reached Iceland on their own accord. The Little Brown Bat of 1944 was probably carried on a ship, convoys being frequent between St. John's, Newfoundland, and Reykjavik during the Second World War. In 1981 it became obvious that bats are carried on ships. A Northern Long-eared Bat and a Hoary Bat were recorded on 24 August 1981 in Reykjavik harbour, onboard a ship which had docked on the 21st upon return from North-America. The animals were dead, but since they had only decomposed slightly, they probably reached Iceland alive. Further four animals were discarded before without being examined.
- Krzanowski (1977) mentions that Koopman and Finnur Guðmundsson (1966) overlooked Pennant (1784, 1787a) as references to bats in Iceland. They dismissed these references intentionally, since Guðmundsson (letter of 23.11.1965) considered Pennant's statements about Icelandic animals not trustworthy enough. However, in view of the present knowledge on bats in Iceland they may also occasionally have reached Iceland in former times, especially on the wing.
- Fig. I shows the finding localities of bats in Iceland. The distribution is decidedly southerly and westerly. This is to be expected given the origin of most of the animals, which are mainly from North-America rather than Europe. This is exactly the opposite to what is found in vagrant birds (see annual rare bird reports in the bird bulletin Bliki). This is surprising given the much more frequent shipping traffic from Europe.
- During last fifty years, bats have been recorded in Iceland in average every fifth year. Their frequency may have increased during this century, especially if one assumes bats are mainly ship-assisted. Both specimens of the only European species recorded, the Nathusius' Pipistrelle, were found in Southwest-Iceland. Therefore they were probably ship-assisted, or else they would be more likely to have been recorded in Southeast-Iceland.
- My conclusion is that European bats are unable to reach Iceland on their own accord, while both vagrancy and ships seem to be open to the North-American ones.
Advertisement
Add Comment
Please, Sign In to add comment